mánudagur, 31. mars 2008

Stóðumst ekki mátið :)





Við hreinlega stóðumst ekki mátið að setja inn nokkrar myndir frá því að stelpurnar okkar fóru að sofa. Komnar í nýju náttfötin og algerlega ómótstæðilega sætar systur! Nú ríkir ró hér hjá okkur og allir að fara í koju sælir og glaðir eftir frábæran dag.

Kveðja,
Kári Valur, Valdís, Hekla Xi og Hildur Luo.

Hildur Luo komin í fangið okkar!!!






Eins og þið sjáið á myndunum hérna fyrir ofan er Hildur Luo komin til okkar! Og eins og þið sjáið á myndunum líka þá gætum við ekki verið hamingjusamari. Hún er bara algert yndi og er strax farin að skoða okkur og brosa við okkur. Fyrst grét hún auðvitað heilmikið en ótrúlega fljótt jafnaði hún sig og sýndi okkur bara sparihliðarnar!

Hekla Xi er búin að vera alveg óendanlega dugleg og góð við litlu systur sína. Greinilega jafndolfallin yfir henni og við hin.

En dagurinn byrjaði á því að við þurftum eiginlega að flýta okkur niður í morgunmat til að missa ekki af kræsingunum. Við sváfum semsagt svo vel og lengi að það var ekki fyrr en að Stína bankaði upp á hjá okkur að við vöknuðum, Stína eiginlega farin að undrast um okkur letihaugana! Morgunverðurinn var líka eins og best verður á kosið, heilmikið úrval úr öllum heimsálfum og útsýni yfir Pearl River og lífið sem liðast eftir henni.

Hittum flesta úr hópnum okkar í morgunverðarsalnum og fórum svo með Andreu og Brynjari á smá rand hérna í kring um hótelið. Keyptum okkur smávegis af vatni og svoleiðis til að hafa uppi á herbergi. Svo fórum við bara að undirbúa stóru stundina. Taka til pappíra og peninga, bleyjur og blautklúta, myndavélar og magabelti... He, he, you get the picture! Hittumst öll og fórum yfir gjafamál fyrir fóstrur og forstöðukonu. Hrönn var búin að undirbúa þetta af mikilli natni og kostgæfni og kunnum við henni allra bestu þakkir fyrir. Svo færði hún og Tommi Heklu Xi litla Baby-Brats dúkku líka, þau gera það ekki endasleppt. Takk aftur elskurnar okkar.

Klukkan hálffjögur fórum við svo með rútunni okkar upp á Guangdong ættleiðingarstofuna, þar sem að við áttum að fá stúlkurnar í fangið. Þar var allt fullt af fólki þegar við komum en við þurftum að fylla út pappíra og fólkið fór flest allt á meðan, þannig að við fengum mjög gott næði þegar svo var loks komið með stúlkurnar eina af annarri.

Við vorum önnur í röðinni og Hildur Luo lét vel í sér heyra. En þetta var samt stórkostleg stund, við bráðnuðum alveg á staðnum öll sem eitt. Þessu er eiginlega ekki hægt að lýsa í orðum, nema að við fengum börnin og settumst svo þarna í sófana og reyndum að róa Hildi Luo. Þarna voru breið bros og þónokkur gleðitár sem féllu. Alveg frábært.

Eftir nokkra stund kom fararstjórinn nokkurskonar reglu á samkomuna og voru þarna tvær konur frá barnaheimilinu sem fóru yfir mjólkur- og grautamálin. Svo fengum við pappíra til að fylla út og svo fengum við að spyrja konurnar um Hildi Luo eins og við gátum. Við fengum fleiri myndir af henni og heilsufarsbókina hennar.

Eftir þetta fórum við sem leið lá til baka á Hvíta Svaninn. Hildur Luo er bara eins og ljósið eina og hún fékk að borða graut, svo safa og vatn, svo fórum við niður á veitingastað hérna á hótelinu og fengum voðalega gott að borða og svo aftur upp og þá var það sveskjumauk! Já , hún er búin að taka vel til matar síns og steinsefur núna.

Hekla Xi knúsaði systur sína góða nótt og færði henni kusuna sem hún gaf henni í rúmið. Alveg yndislegar báðar tvær. Hekla Xi steinsofnað líka á mettíma, hún var alveg úrvinda en góða skapið vék ekki frá henni eina mínútu í dag. Hún er búin að taka þessu af mikilli yfirvegun og á sama tíma er henni greinileg mjög mikið niðri fyrir og ber greinilega strax miklar tilfinningar til Hildar Luo systur sinnar.

En núna sitjum við öll hér í herberginu okkar og erum að undirbúa morgundaginn, hann verður tekinn snemma. Pappírsvinnan er framundan.....

Bestu kveðjur heim á landið bláa hérna frá bökkum Pearl River,
Allir með hamingjubrosið eyrnanna á milli,
Kári Valur, Valdís, Hekla Xi, Hildur Luo og Stína.

sunnudagur, 30. mars 2008

Komin til Guangzhou...rétt svo!

Já við erum komin á leiðarenda eftir spennuþrungið ferðalag, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Þetta byrjaði nú á Flugstöðinni heima í Keflavík. Þá voru miðar hjá sumum ekki eins og þeir áttu að vera, en allir komust þó af stað til Köben á sínum rétta tíma eftir töluvert japl, jaml og fuður.

Dvölin í Köben var alveg frábær í alla staði, gott að hvíla sig á góðu hóteli, rölta aðeins um bæinn og hygga sig svolítið.

Svo tók flugið til Beijing við. Þar gátum við ekki tékkað inn farangurinn alla leið eins og okkur hafði verið uppálagt hjá ferðaskrifstofu Íslands, en gott og vel við höfðum nægan tíma til að taka farangurinn okkar og tékka okkur aftur inn í innanlandsflugið til Guangzhou.

Flugið til Beijing gekk alveg eins og í sögu og Hekla Xi svaf meirihluta ferðarinnar. Aðrir ferðalangar höfðu það sama að segja, allt gekk vel. Eiginlega upplifun að koma í nýju flugstöðina í Beijing. Milljón fermetrar og ótrúlega hraðvirkt allt saman. Og stórglæsileg hönnun.

Svo lá leið okkar eftir misvísandi pappírum frá Ferðaskrifstofu Íslands og misvísandi leiðbeiningum frá starfsfólki á flugvellinum í terminal 1 þar sem við gerðum tilraun til að innrita okkur í flugið til Guangzho. Kári hafði ekki gilda bókun, stutt í flug og ekkert hægt að hafa samband við ferðaskrifstofuna heima á sunnudegi klukkan 7 að morgni.

Nú voru góð ráð dýr og var ákveðið að hópurinn færi á undan Kára og öðru pari sem var í sömu vandræðum. Þau keyptu sér svo miða og Kári gat komist með flugi klukkustund síðar og þegar þetta er ritað er parið sem eftir varð sennilega að lenda í Guangzhou. Klukkan er semsagt að verða eitt eftir miðnætti og eru þau því um það bil 6 tímum á eftir áætlun.

Hópurinn hinkraði eftir Kára en fararstjórinn ætlaði að fara aftur út á flugvöll að sækja hina strandaglópana. Þetta er eitthvað sem við verðum að fá í lag fyrir heimferðina, algerlega óásættanlegt að vera í svona óvissu með litlu englana okkar á ferðalagi.

Hingað erum við komin á hótelið okkar og erum eiginlega dofin af þreytu. Til að bæta gráu ofan á svart fengum við ekki herbergi fyrir okkur og Stínu sem er innangengt um, heldur aðeins samliggjandi. Eftir talsvert þvarg herjuðum við út bedda handa Heklu Xi til að sofa á inni hjá okkur. Það átti reyndar að rukka okkur fyrir hann aukalega en þá var klappað í borðið og fengum við hann frítt. Þetta liggur væntanlega hjá Blas að hafa ekki komið því til okkar að ekki væri hægt að fá herbergin innangeng. Leiðinlegt að þetta skyldi ekki geta verið eins og við óskuðum eftir, líka erfitt að vera að eiga við eitthvað svona þegar við erum að klára svona erfitt ferðalag hingað.

En á morgun er stóri dagurinn og þá getum við örugglega lagt öll þessi vandræði til hliðar og einbeitt okkur að nýja sólargeislanum okkar sem við fáum í fangið á morgun klukkan 4 að staðartíma. Nú er bara að koma sér í koju og undirbúa svo stóru stundina þegar við komumst á fætur.

Besta kveðja frá Guangzhou í röku en stilltu veðri,
Kári Valur, Valdís og Hekla Xi.

föstudagur, 28. mars 2008

Fyrsti áfangi að baki.

Komin á hótelið í Köben.
Hekla Xi og mamma á Domhuskælderen.
Stína og Kári í smurbrauði líka.

Þá eru hin fjögur fræknu komin til Kaupmannahafnar og erum hér í besta yfirlæti á ljómandi góðu hóteli. Flugið gekk alveg glimrandi vel, ekki mjög margir of mikið við skál í vélinni og Hekla Xi var eins og ljósið eina. Hún horfði á eina mynd og litaði Latabæjarlitabókina sem hún fékk í flugvélinni. Fengum svo að tékka okkur inn um leið og við komum á hótelið, hefðum annars þurft að setja allar okkar pjönkur í geymslu og koma aftur eftir þrjá tíma. En hér er allt eins og við viljum hafa það.

Fórum aðeins í bæinn í dag, fengum okkur hressingu að dönskum sið á Domhuskælderen. Alveg dejligt smurbrauð eftir kúnstarinnar reglum, þessi lýsing var bara fyrir vin okkar Ómar, vink, vink!

Smá skrens í H&M, kaffihús og röltum svo strikið til baka upp á Ráðhústorg. Þar ætlaði Hekla Xi að skoða óskabrunninn eins og hún kallaði hann, en þar var bara dúfnaskítur og ekkert vatn í brunninum. Og enn síður einhverjar krónur!

Við hittum svo hluta hópsins okkar á Vesuvius ítölskum veitingastað við Ráðhústorg og fengum okkur pizzu og með´enni. Mikið gaman þar sem Hrönn fór á kostum í Ítölskunni og þjónninn í Íslenskunni! Mikið skrafað og mikið gaman.

Nú tekur við hvíld og slökun þangað til að við leggjum í hann til Beijing annað kvöld.

Besta kveðja frá okkur öllum í Kóngsins Köbenhavn,
Kári Valur, Valdís, Hekla Xi og Stína.

fimmtudagur, 27. mars 2008

Síðasti dagur á Klakanum í bili....

Jæja þá er síðasti dagurinn að kvöldi kominn á landinu bláa, allavega þar til að við komum heim sem fjögurra manna fjölskylda. Við leggjum af stað í fyrramálið til Kaupmannahafnar þar sem við ætlum að slaka okkur niður í einn sólarhring áður en við förum í langa legginn í þessu ferðalagi.

Undirbúningi var lokið í dag. Það var byrjað á að fá nýtt kreditkort, veitir víst ekki af! Og svo var sóttur gjaldeyrir, fengum líka bók í Iðu um suður Kína sem er mjög góð. Fórum og hittum Guðrúnu í ættleiðingunni og fengum hjá henni síðustu gögnin, nokkur ljósrit, framlengt forsamþykki, boðsbréf/ferðaleyfi og vegabréfin okkar. Í vegabréfin var komin inn vegabréfsáritun til Kínverska Alþýðulýðveldisins. Þannig að frá Guðrúnu fórum við klár á pappírunum allavega!

Svo fórum við og greiddum farseðlana og gengum frá því. Þar tók á móti okkur Anna sem hefur séð um að greiða götu ættleiðenda í mörg ár. Það hefur verið alveg einstakt að hafa hana í þessu fyrir okkur, alveg sérstaklega liðleg með þetta allt saman.

Hekla Xi fór með Elsu Rut í leiðangur og neitaði að hitta mömmu og pabba í hádegismat, vildi bara vera með frænku sinni að snúllast eitthvað. Alveg óborganleg! En hún er orðin voðalega spennt fyrir ferðinni og líka mjög jákvæð fyrir þessu öllu saman. Við erum viss um að hún verður í góðum gír þó að það taki tímana tvenna að fara þessa bæjarleið til Guangzhou.

En við setjum næst eitthvað hér inn annað kvöld eða í síðasta lagi áður en að við kveðjum Danmörk. Það verður nú að reportera hvað maður gerir í Gamla landinu!

Kveðja,
Kári Valur, Valdís og Hekla Xi.

þriðjudagur, 25. mars 2008

Skemmtilegur póstur frá Kína.


Katherine aka. Jia Chen og dóttir hennar.

Við fengum skemmtilegan póst í morgun, það var hún Katherine fararstjórinn okkar síðan í ferðinni 2004 þegar við fengum Heklu Xi. Við sendum henni póst fyrir nokkru síðan, eða þegar við vorum búin að fá upplýsingarnar um hana Hildi Luo. Okkur langaði bara til að leyfa henni að fylgjast með hvenær við kæmum aftur og fá fréttir af henni og hennar fjölskyldu. Við höfum verið lítillega í sambandi síðan í ferðinni 2004. Hún hefur alltaf verið áhugasöm um að halda sambandi og man greinilega vel eftir okkur.

Hún er reyndar hætt að starfa sem fararstjóri, en er komin í þýðingar hjá BLAS. Dóttir hennar er jafngömul og Hekla Xi eða einu ári yngri. Hún var allavega ekki orðin ársgömul þegar Katherine var með okkur á ferð í ágúst 2004.

Hún sagðist langa til að hitta okkur ef tími og færi gefst á í Beijing núna í apríl. Það verður nú bara gaman og fagnaðarfundir.

Annars vorum við að klára vinnuna í dag og svolítið af snúningum hér á Egilsstöðum. Þá er bara í kvöld og á morgun að fínisera undirbúning og loka töskum. Svo förum við suður og ferðin er hafin!

Kveðja úr Einbúablá,
Kári Valur, Valdís og Hekla Xi.

mánudagur, 24. mars 2008

Loki fer í vist.

Loki á páskadag.

Þeim fækkar alltaf verkunum í undirbúningi, í dag fórum við með Loka okkar í vist niður á Neskaupstað til afa Hjörvars og Nönnu. Saga var þar líka og var mikið gaman að hitta hana, long time no see. Loki er þá kominn í sæluna, þar er stjanað við hann á alla lund og við vitum að ekki kemur til með að væsa um gamla vininn okkar.

Við erum að gera síðustu verkin hérna heima, klára pökkun, ganga frá hér heima og undirbúa tæknimál og fleira. Settum meðal annars Skilaboðaskjóðuna og fleira barnvænt á ipodinn. Svo er að klára vinnuna á morgun, þá er þetta langt komið.

Nú er bara ein vika þangað til að Hildur Luo kemur til okkar og spenningur orðinn nánast áþreifanlegur hérna í Einbúablánni. En þetta verður fljótt að líða vonum við...

Þangað til næst,
Kveðja frá Egilsstöðum,
Kári Valur, Valdís og Hekla Xi.

sunnudagur, 23. mars 2008

Nafn og páskar!



Eins og sést hér á myndinni fyrir ofan er til svolítið af súkkulaði og gúmmilaði á heimilinu í augnablikinu, en það minnkar eftir því sem á daginn líður! En Hekla Xi leitaði að páskaeggjunum í morgun og geystist herbergi úr herbergi í leitinni, voðalega gaman.

En að stóru fréttunum. Við höfum ákveðið að Luo okkar fái nafnið Hildur. Já, hún kemur til með að heita fullu nafni Hildur Luo Káradóttir þegar hún verður komin í fangið okkar. Sem er jú eftir eina viku og einn dag!

Hér á Egilsstöðum er brakandi Páskasól og blíða, mál að fara út í labbitúr og hlaða batteríin fyrir átökin framundan. Og páskaeggjaátið!

Semsagt Hildur Luo er það....

Kveðja frá Egilsstöðum,
Kári Valur, Valdís og Hekla Xi.

laugardagur, 22. mars 2008

Undirbúningur....


Fullorðna fólkið í hópi 17 á ferðafundinum.

Hæ öll sömul,

Síðustu vikur hafa einkennst af eftirvæntingu og spenningi fyrir ferðinni miklu og mikið verið spáð og spekúlerað. Það er vægast sagt í mörg horn að líta og að mörgu að huga. Við erum reyndar núna farin að sjá fyrir endann á þessu, en það er líka eins gott því að við leggjum í hann hérna frá Egilsstöðum núna á miðvikudaginn. Já, þetta er að skella á. Við skulum renna yfir hvernig þetta er búið að vera síðan að við skrifuðum inn hérna síðast. Þó ekki væri nema til að skrásetja þetta, svo að við munum kannski eftir einhverju af þessu!

Síðast þegar við skrifuðum á síðuna var ekki komið á hreint hvenær við kæmumst út til Kína að sækja hana Luo okkar. Við fórum til Reykjavíkur á ferðafund þar sem allur hópurinn okkar hittist, var það í annað sinn sem hópurinn hittist allur saman. Reyndar erum við búin að nota okkur netið til samskipta mjög mikið og manni fannst bara að maður hefði þekkt þetta fólk í óratíma! Auðvitað erum við búin að kynnast svolítið með þessum samskiptum og er þessi hópur vel samstilltur og fókuseraður á verkefnið. Það virðist okkur vera mjög auðvelt að taka ákvarðanir og erum við hæstánægð með alla þessa nýju vini og ferðafélaga.

Hekla Xi og Margrét Edda smella saman og varla hægt að slíta þær í sundur, þær verða eflaust miklar vinkonur. Alveg yndislegt að sjá þær saman, það verður ekki mikið mál að ferðast með þessar duglegu stelpur.

Ferðaleyfið sem við biðum eftir kom svo óvænt núna fyrir viku síðan og þá má segja að allt hafi farið á fulla ferð! Svolítið absúrd að þegar við erum búin að bíða eftir þessu í tvö og hálft ár að þá hafi maður skyndilega ekki nærri nægan tíma til að undirbúa sig! En svona er þetta bara, við setjum bara á okkur Íslensku víkingahjálmana og látum þetta bara reddast!

Við höfum verið að vinna talsvert mikið síðustu vikurnar til að hafa svona sæmilega hreint borð þegar við förum. Það hefur gengið bærilega og nú er bara einn vinnudagur eftir áður en að við förum suður.

Við förum semsagt suður á miðvikudag og svo út til Kaupmannahafnar á föstudagsmorgun. Þar ætlum við að gista eina nótt og hafa það svolítið huggulegt fram á laugardag. En við förum í loftið til Beijing á laugardagskvöld. Lendum svo í Beijing upp úr hádegi á sunnudaginn 30. mars og höldum áfram til Guangzhou í beinu framhaldi af því og lendum þar um klukkan 19.00 á sunnudagskvöldinu.

Þetta ferðalag á líklega eftir að taka svolítið á, en við erum öllu vön og látum það ekkert á okkur fá. Svo er það líka gulrótin, við fáum hana Luo í fangið daginn eftir. 31. mars verður tímamótadagur í lífi okkar fjölskyldu, nýr fjölskyldumeðlimur bætist í hópinn. Næstu daga þar á eftir verðum við í pappírsvinnu varðandi ættleiðinguna og vegabréf. Ásamt því förum við í hinar ýmsu skoðanaferðir og reynum að skoða sem mest, áður en að við fljúgum til Beijing þann 10. apríl.

Þar taka við frekari skoðunarferðir og pappírsvinna í sambandi við Schengen áritun fyrir Luo litlu. Það verður svo 15. apríl sem við fljúgum til Kaupmannahafnar og svo í beinu framhaldi heim á farsældar Frón.

Núna erum við að ljúka við lokaundirbúning, búin að raða gróflega í töskur og gera allt annað klárt. Loki fer í fóstur á Neskaupstað hjá Afa Hjörvari og Nönnu, þar verður stjanað við gamla karlinn okkar á meðan að við verðum í burtu.

Þangað til næst...
Kveðja frá Egilsstöðum,
Kári Valur, Valdís og Hekla Xi.


sunnudagur, 2. mars 2008

Kínablogg númer 2!

Hæ öll sömul,

Þessi síða er ætluð til að skrá ferðasögu okkar þegar við förum til Kína núna í vor í þeim erindagjörðum að sækja dóttur okkar sem við erum að ættleiða þaðan. Já, núna er fjölskyldan að stækka aftur og Hekla Xi er að verða stóra systir!

Nýji fjölskyldumeðlimurinn heitir enn sem komið er Yang Chun Hua Luo og fædd 27.07.07. Hún varð semsagt 7 mánaða á miðvikudaginn var. Hún er alveg gullfalleg og við hestaheilsu. Hún er á barnaheimili í suður-Kína í Guangdong héraði. Við komum til með að fljúga fyrst til Beijing og vera þar í nokkra daga áður en við förum til borgar sem heitir Guangzhou þar sem við fáum hana litlu Luo okkar í fangið. Næstu borgir þarna eru Hong Kong og Macao. Til gamans má geta þess að Guangzhou er á svipaðri breiddargráðu og Kúba og Kanaríeyjar, en Beijing um það bil sömu og Madrid og New York.

Fjölskyldan er að sjálfsögðu alsæl og spennt að fara og sækja hana Luo okkar. Hekla Xi hefur verið alveg yndisleg, finnst systir sín alveg ótrúlega sæt og hlakkar mikið til að fá hana til sín. Um daginn sagði hún "Ég elska litlu systur mína þó að við séum bara komin með mynd". Þetta veit bara á gott.

Við getum ekki birt mynd af henni strax vegna þess að hún er ekki löglega orðin okkar, verður það ekki fyrr en hún verður komin í fangið okkar úti í Kína núna í vor. En hafið ekki áhyggjur við verðum nú örugglega með slatta af montmyndum þegar þar að kemur! :)

Við vonumst til að fara út til Kína í byrjun apríl, en það gæti dregist til enda apríl eða jafnvel byrjun maí. En eins og staðan er akkúrat núna þá erum við á leiðinni út til hennar í byrjun apríl og allur okkar undirbúningur miðar að því.

Til að byrja með koma færslur hér inn til með að vera fáar, en þegar í ferðina miklu verður komið ætlum við að setja aukinn kraft í þetta og halda góða dagbók. Það var okkur mikils virði eftir að heim var komið með Heklu Xi 2004 að hafa þessa ferðasögu á reiðum höndum. Einnig munum við reyna að koma inn myndum úr ferðinni á einhverja myndasíðu og verður þá tengill inn á hana hérna til hægri.

Látum þetta duga í bili,
Kveðja frá Egilsstöðum,
Kári Valur, Valdís og Hekla Xi.