mánudagur, 31. mars 2008

Hildur Luo komin í fangið okkar!!!






Eins og þið sjáið á myndunum hérna fyrir ofan er Hildur Luo komin til okkar! Og eins og þið sjáið á myndunum líka þá gætum við ekki verið hamingjusamari. Hún er bara algert yndi og er strax farin að skoða okkur og brosa við okkur. Fyrst grét hún auðvitað heilmikið en ótrúlega fljótt jafnaði hún sig og sýndi okkur bara sparihliðarnar!

Hekla Xi er búin að vera alveg óendanlega dugleg og góð við litlu systur sína. Greinilega jafndolfallin yfir henni og við hin.

En dagurinn byrjaði á því að við þurftum eiginlega að flýta okkur niður í morgunmat til að missa ekki af kræsingunum. Við sváfum semsagt svo vel og lengi að það var ekki fyrr en að Stína bankaði upp á hjá okkur að við vöknuðum, Stína eiginlega farin að undrast um okkur letihaugana! Morgunverðurinn var líka eins og best verður á kosið, heilmikið úrval úr öllum heimsálfum og útsýni yfir Pearl River og lífið sem liðast eftir henni.

Hittum flesta úr hópnum okkar í morgunverðarsalnum og fórum svo með Andreu og Brynjari á smá rand hérna í kring um hótelið. Keyptum okkur smávegis af vatni og svoleiðis til að hafa uppi á herbergi. Svo fórum við bara að undirbúa stóru stundina. Taka til pappíra og peninga, bleyjur og blautklúta, myndavélar og magabelti... He, he, you get the picture! Hittumst öll og fórum yfir gjafamál fyrir fóstrur og forstöðukonu. Hrönn var búin að undirbúa þetta af mikilli natni og kostgæfni og kunnum við henni allra bestu þakkir fyrir. Svo færði hún og Tommi Heklu Xi litla Baby-Brats dúkku líka, þau gera það ekki endasleppt. Takk aftur elskurnar okkar.

Klukkan hálffjögur fórum við svo með rútunni okkar upp á Guangdong ættleiðingarstofuna, þar sem að við áttum að fá stúlkurnar í fangið. Þar var allt fullt af fólki þegar við komum en við þurftum að fylla út pappíra og fólkið fór flest allt á meðan, þannig að við fengum mjög gott næði þegar svo var loks komið með stúlkurnar eina af annarri.

Við vorum önnur í röðinni og Hildur Luo lét vel í sér heyra. En þetta var samt stórkostleg stund, við bráðnuðum alveg á staðnum öll sem eitt. Þessu er eiginlega ekki hægt að lýsa í orðum, nema að við fengum börnin og settumst svo þarna í sófana og reyndum að róa Hildi Luo. Þarna voru breið bros og þónokkur gleðitár sem féllu. Alveg frábært.

Eftir nokkra stund kom fararstjórinn nokkurskonar reglu á samkomuna og voru þarna tvær konur frá barnaheimilinu sem fóru yfir mjólkur- og grautamálin. Svo fengum við pappíra til að fylla út og svo fengum við að spyrja konurnar um Hildi Luo eins og við gátum. Við fengum fleiri myndir af henni og heilsufarsbókina hennar.

Eftir þetta fórum við sem leið lá til baka á Hvíta Svaninn. Hildur Luo er bara eins og ljósið eina og hún fékk að borða graut, svo safa og vatn, svo fórum við niður á veitingastað hérna á hótelinu og fengum voðalega gott að borða og svo aftur upp og þá var það sveskjumauk! Já , hún er búin að taka vel til matar síns og steinsefur núna.

Hekla Xi knúsaði systur sína góða nótt og færði henni kusuna sem hún gaf henni í rúmið. Alveg yndislegar báðar tvær. Hekla Xi steinsofnað líka á mettíma, hún var alveg úrvinda en góða skapið vék ekki frá henni eina mínútu í dag. Hún er búin að taka þessu af mikilli yfirvegun og á sama tíma er henni greinileg mjög mikið niðri fyrir og ber greinilega strax miklar tilfinningar til Hildar Luo systur sinnar.

En núna sitjum við öll hér í herberginu okkar og erum að undirbúa morgundaginn, hann verður tekinn snemma. Pappírsvinnan er framundan.....

Bestu kveðjur heim á landið bláa hérna frá bökkum Pearl River,
Allir með hamingjubrosið eyrnanna á milli,
Kári Valur, Valdís, Hekla Xi, Hildur Luo og Stína.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kæra fjölskylda
Innilegar hamingjuóskir.
Hún er alveg yndisleg litla dúllan.
Kveðja Rós, Jói og Guðný Sigurrós (hóp 9 og 20)

Nafnlaus sagði...

Til hamingju kæru vinir, þær eru æðislegar þessar systur.
Kveðja frá Ólafsvík

Nafnlaus sagði...

hæ öll! Þetta er frábært. Til hamingju öll. Vonandi gengur þetta áfram svona vel!
Karólína og co

Nafnlaus sagði...

Hæ stóra fjölskylda :-)

Hún Hildur Luo er bara yndisleg, til hamingju með hana.
Svakalega er gaman hvað allt gengur vel.
Gaman að fá að fylgjast með ykkur

Bestu kveðjur,
Berglind, Valdimar og strákarnir.

Nafnlaus sagði...

Yndisleg stúlka hún Hildur Luo. Það er ekki laust við að tárin farin að renna þegar maður rifjar upp geðshræringun sem við upplifðum fyrir hálfu ári í héraði þarna aðeins norðar.
Bestu kveðjur, Pálína, Jökull, Laufey og Kristín hópi 16

Nafnlaus sagði...

Kæra fjölskylda!

Innilega til hamingju með að vera búin að fá Hildi Luo í fangið, aldeilis falleg stelpa á ferð og strax farin að brosa, yndislegt! :)
Hlakka til að fylgjast með áfram!
Bestu kveðjur af klakanum
Sigga, Bjössi og Lóa Guðrún (hópi 10 til Kína)

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með þessa yndislega fallegu stúlku! Þær systur eru guðdómlegar í nýju náttfötunum. Gaman að fá að fylgjast með ykkur.
bestu kveðjur
Birna og co Akureyri
(sem bíða óþreyjufull eftir að fá að sækja soninn til Kína)

Nafnlaus sagði...

Kæra stórfjölskylda,
innilegar hamingjuóskir með yndislegu litlu Hildi Luo ykkar. Mikið er hún falleg og brosið hennar bræðir á stundinni! Hún er nú aldeilis heppin að eiga þessa frábæru stóru systur líka :)
Gangi ykkur vel áfram.
Kær kveðja,
Kristjana, Palli, Uni Dagur Anand, Signý Pála og Hanna Steina Yin - sem kom heim frá Kína í maí ´05

kristinvald sagði...

Kæra stórfjölskylda !

Innilegar hamingjuóskir með hvort annað. Hún Hildur Luo er þvíííílíka krúttið og þær systur í náttfötunum eru bara flottastar :-)
Ótrúlega gaman að sjá hamingjubrosið á ykkur öllum því þetta er jú...hamingjudagur :-)

Kær kveðja
Kristín, Gústi og Matthildur

Nafnlaus sagði...

Elsku fjölskylda,
'Eg var spennt í allan dag og hugsaði til ykkar. Þær eru dásamlegar dúllur og þið líka!Til lykke og gangi ykkur áfram vel.
kv. Soffía Halld

Nafnlaus sagði...

Innilegar hamingjuóskir elsku vinir. Þær eru alveg æðislegar systurnar, gott að heyra að gengið hefur vel. Hlökkum til að sjá meira.
Stórt knús frá öllum í Birkiásnum. Lena.

Nafnlaus sagði...

Hjartanlega til hamingju með þessa líka yndislegu stúlku, og þær systur saman í náttfötunum alveg eins og þær hafi alltaf verið saman. Fallegt.
hamingjuóskir
Díana, Hörður og Guðrún Edda hópi 13