sunnudagur, 2. mars 2008

Kínablogg númer 2!

Hæ öll sömul,

Þessi síða er ætluð til að skrá ferðasögu okkar þegar við förum til Kína núna í vor í þeim erindagjörðum að sækja dóttur okkar sem við erum að ættleiða þaðan. Já, núna er fjölskyldan að stækka aftur og Hekla Xi er að verða stóra systir!

Nýji fjölskyldumeðlimurinn heitir enn sem komið er Yang Chun Hua Luo og fædd 27.07.07. Hún varð semsagt 7 mánaða á miðvikudaginn var. Hún er alveg gullfalleg og við hestaheilsu. Hún er á barnaheimili í suður-Kína í Guangdong héraði. Við komum til með að fljúga fyrst til Beijing og vera þar í nokkra daga áður en við förum til borgar sem heitir Guangzhou þar sem við fáum hana litlu Luo okkar í fangið. Næstu borgir þarna eru Hong Kong og Macao. Til gamans má geta þess að Guangzhou er á svipaðri breiddargráðu og Kúba og Kanaríeyjar, en Beijing um það bil sömu og Madrid og New York.

Fjölskyldan er að sjálfsögðu alsæl og spennt að fara og sækja hana Luo okkar. Hekla Xi hefur verið alveg yndisleg, finnst systir sín alveg ótrúlega sæt og hlakkar mikið til að fá hana til sín. Um daginn sagði hún "Ég elska litlu systur mína þó að við séum bara komin með mynd". Þetta veit bara á gott.

Við getum ekki birt mynd af henni strax vegna þess að hún er ekki löglega orðin okkar, verður það ekki fyrr en hún verður komin í fangið okkar úti í Kína núna í vor. En hafið ekki áhyggjur við verðum nú örugglega með slatta af montmyndum þegar þar að kemur! :)

Við vonumst til að fara út til Kína í byrjun apríl, en það gæti dregist til enda apríl eða jafnvel byrjun maí. En eins og staðan er akkúrat núna þá erum við á leiðinni út til hennar í byrjun apríl og allur okkar undirbúningur miðar að því.

Til að byrja með koma færslur hér inn til með að vera fáar, en þegar í ferðina miklu verður komið ætlum við að setja aukinn kraft í þetta og halda góða dagbók. Það var okkur mikils virði eftir að heim var komið með Heklu Xi 2004 að hafa þessa ferðasögu á reiðum höndum. Einnig munum við reyna að koma inn myndum úr ferðinni á einhverja myndasíðu og verður þá tengill inn á hana hérna til hægri.

Látum þetta duga í bili,
Kveðja frá Egilsstöðum,
Kári Valur, Valdís og Hekla Xi.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bara að prufa!

Kínastelpa sagði...

Vá ég náði að vera fyrst að skrifa á síðuna ykkar ;-)
Flott hvernig þið eruð búin að setja upp síðuna með myndunum.
Tommi fékk upplýsingar hvernig á að komast inn bakdyramegin á þessar blog síður í Kína !
Mikið er það gott að Hekla Xi er svona jákvæð í garð litlu systur.
Við eigum sko eftir að fylgjast með þessari síðu !
Hrönn og Tommi í 17

Gyda og Kalli sagði...

Halló - þessi síða komin í favorite
Bestu kveðjur
Gyða, Kalli og Sigga Bára Min
Hópum 12 og 24

Nafnlaus sagði...

Kæru vinir.
Mikið hlökkum við til að fylgjast með ferðalaginu ykkar, væri sko alveg til í að vera að fara með ykkur aftur! Gangi ykkur vel við undirbúninginn.Elsku Hekla Xi á eftir að verða flott stórasystir.
Bestu kveðjur frá Akureyri,
Helga og Sigríður Anna Dan

Nafnlaus sagði...

oo en gaman! Erum alveg æsispennt með ykkur og hlökkum til að fá að fylgjast með ferðinni.. verður svo gaman að koma heim í sumar og kikja á litluna, stóru systur og ykkur auðvitað lika :)
Knus og kram frá Kaupmannahöfn

Nafnlaus sagði...

Kæra fjölskylda.
Innilega til hamingju með litlu dúlluna ykkar.
Hlökkum til að fylgjast með ferð ykkar á sömu slóðir og við fórum fyrir bráðum 6 árum síða. Hildur Björg kom í foreldrafang á ættleiðingaskrifstofunni í Guangzhou-borg þann 7. maí árið 2002. Við munum það eins og gerst hafi í gær.
Gangi ykkur allt í haginn.
Bestu kveðjur, Þórdís, Kristján, Hjalti stóri bró og Hildur Björg bráðum 7 ára Guangdong-stelpa.

Nafnlaus sagði...

Kæra fjölskylda til hamingju með litla barnið ykkar. Það verður gaman að fá að fylgjast með ferðinni til Kína. Gangi ykkur vel í undirbúningnum.
Með kveðju
Jórunn og Alfa Magdalena (Kínahóp 13)búsettar á Akureyri.

kristinvald sagði...

Kæra STÓRfjölskylda ;-)

Innilegar hamingjuóskir með litla litla gullmolann ykkar. Hlökkum til að fylgjast með ferðalaginu ykkar núna alveg eins og við gerðum seinast.

Vonandi komist þið út fyrir þessa blessuðu sýningu.

Kær kveðja
Kristín, Gústi og Matthildur

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ, fann bloggið ykkar :) Langar að óskar ykkur góðrar ferðar til Kína, mun fylgjast spennt með!!
Bestu kveðjur
Sigga, Bjössi og Lóa Guðrún