sunnudagur, 30. mars 2008

Komin til Guangzhou...rétt svo!

Já við erum komin á leiðarenda eftir spennuþrungið ferðalag, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Þetta byrjaði nú á Flugstöðinni heima í Keflavík. Þá voru miðar hjá sumum ekki eins og þeir áttu að vera, en allir komust þó af stað til Köben á sínum rétta tíma eftir töluvert japl, jaml og fuður.

Dvölin í Köben var alveg frábær í alla staði, gott að hvíla sig á góðu hóteli, rölta aðeins um bæinn og hygga sig svolítið.

Svo tók flugið til Beijing við. Þar gátum við ekki tékkað inn farangurinn alla leið eins og okkur hafði verið uppálagt hjá ferðaskrifstofu Íslands, en gott og vel við höfðum nægan tíma til að taka farangurinn okkar og tékka okkur aftur inn í innanlandsflugið til Guangzhou.

Flugið til Beijing gekk alveg eins og í sögu og Hekla Xi svaf meirihluta ferðarinnar. Aðrir ferðalangar höfðu það sama að segja, allt gekk vel. Eiginlega upplifun að koma í nýju flugstöðina í Beijing. Milljón fermetrar og ótrúlega hraðvirkt allt saman. Og stórglæsileg hönnun.

Svo lá leið okkar eftir misvísandi pappírum frá Ferðaskrifstofu Íslands og misvísandi leiðbeiningum frá starfsfólki á flugvellinum í terminal 1 þar sem við gerðum tilraun til að innrita okkur í flugið til Guangzho. Kári hafði ekki gilda bókun, stutt í flug og ekkert hægt að hafa samband við ferðaskrifstofuna heima á sunnudegi klukkan 7 að morgni.

Nú voru góð ráð dýr og var ákveðið að hópurinn færi á undan Kára og öðru pari sem var í sömu vandræðum. Þau keyptu sér svo miða og Kári gat komist með flugi klukkustund síðar og þegar þetta er ritað er parið sem eftir varð sennilega að lenda í Guangzhou. Klukkan er semsagt að verða eitt eftir miðnætti og eru þau því um það bil 6 tímum á eftir áætlun.

Hópurinn hinkraði eftir Kára en fararstjórinn ætlaði að fara aftur út á flugvöll að sækja hina strandaglópana. Þetta er eitthvað sem við verðum að fá í lag fyrir heimferðina, algerlega óásættanlegt að vera í svona óvissu með litlu englana okkar á ferðalagi.

Hingað erum við komin á hótelið okkar og erum eiginlega dofin af þreytu. Til að bæta gráu ofan á svart fengum við ekki herbergi fyrir okkur og Stínu sem er innangengt um, heldur aðeins samliggjandi. Eftir talsvert þvarg herjuðum við út bedda handa Heklu Xi til að sofa á inni hjá okkur. Það átti reyndar að rukka okkur fyrir hann aukalega en þá var klappað í borðið og fengum við hann frítt. Þetta liggur væntanlega hjá Blas að hafa ekki komið því til okkar að ekki væri hægt að fá herbergin innangeng. Leiðinlegt að þetta skyldi ekki geta verið eins og við óskuðum eftir, líka erfitt að vera að eiga við eitthvað svona þegar við erum að klára svona erfitt ferðalag hingað.

En á morgun er stóri dagurinn og þá getum við örugglega lagt öll þessi vandræði til hliðar og einbeitt okkur að nýja sólargeislanum okkar sem við fáum í fangið á morgun klukkan 4 að staðartíma. Nú er bara að koma sér í koju og undirbúa svo stóru stundina þegar við komumst á fætur.

Besta kveðja frá Guangzhou í röku en stilltu veðri,
Kári Valur, Valdís og Hekla Xi.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Úff, en leiðinlegt að hlutirnir skyldu ekki standast. Nógu erfitt er nú þetta ferðalag! Hlökkum til morgundagsins með ykkur.
Bestu kveðjur,
Helga og Sigríður Anna Dan

Nafnlaus sagði...

Gott að allir eru komnir á áfangastað. Spennandi morgundagur framundan og gaman, gaman.

K. Helgi bróðir og co.

Nafnlaus sagði...

Hæ,hæ
gott að þið eruð komin alla þessa löngu leið vonandi gengur allt vel með síðari flug og fleira.
Dagurinn ykkar allra á morgun! Ekkert skyggir á það:)
Kveðjur til ykkar og allra hinna.
Jórunn & Alfa Malla

Gislina sagði...

Gott að allt fór á endanum vel í fluginu, verður bara að ævintýri þegar heim er komið :-) þekkjum það vel úr okkar ferðum :-)

Bíðum spennt með ykkur eftir morgundeginum, stór dagur hjá ykkur öllum.

Kveðja
Gilla, Friðjón, Ellý Rún og Herdís Heiða

kristinvald sagði...

Fall er faraheill !!

En nú er loksins að koma að stóru stundinni og þegar ég er að mæta í vinnuna í fyrramálið eruð þið að fá gullmolann ykkar í fangið, magnað alveg.

Njótið komandi dags og við hlökkum til að sjá ykkuð sameinuð.

Bestu kveðjur
Kristín, Gústi og Matthildur

Nafnlaus sagði...

Hæ elskurnar.
Leiðinlegt að ekki skyldi allt standast. En nú er stóra stundin okkar allra að renna upp eftir alla biðina og hitt hverfur í skuggann. Við býðum spennt eftir fréttum og myndum. Gangi ykkur vel á eftir. Pabbi & co Nesk.

Nafnlaus sagði...

Vá þetta hefur verið erfitt ferðalag og ég skil vel að þið hafið verið orðin þreytt. Vona að þið hafið getað hvílst vel síðast liðna nótt og nú séuð þið búin með svona óvæntar uppákomur í þessu ferðalagi! Nú eruð þið búin að fá yndislegu litlu dóttur ykkar í fangið. Gangi ykkur vel að aðlagast og við hlökkum mikið til að fá að sjá mynd af henni. Góðar kveðjur frá okkur öllum og sérstaklega frá Dórótheu, hún biður að heilsa Heklu stóru systur og gullfiskunum við fossinn!
Bestu kveðjur til Guangzhou frá Ólöfu Guangzhou stelpu, foreldrunum Fríðu og Örnólfi og Dóróhteu

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ,

Bara að kvitta fyrir komunni, gaman að fylgjast með ykkur.

Gangi ykkur vel í dag!

kveðja
Guðjón Örn