laugardagur, 22. mars 2008

Undirbúningur....


Fullorðna fólkið í hópi 17 á ferðafundinum.

Hæ öll sömul,

Síðustu vikur hafa einkennst af eftirvæntingu og spenningi fyrir ferðinni miklu og mikið verið spáð og spekúlerað. Það er vægast sagt í mörg horn að líta og að mörgu að huga. Við erum reyndar núna farin að sjá fyrir endann á þessu, en það er líka eins gott því að við leggjum í hann hérna frá Egilsstöðum núna á miðvikudaginn. Já, þetta er að skella á. Við skulum renna yfir hvernig þetta er búið að vera síðan að við skrifuðum inn hérna síðast. Þó ekki væri nema til að skrásetja þetta, svo að við munum kannski eftir einhverju af þessu!

Síðast þegar við skrifuðum á síðuna var ekki komið á hreint hvenær við kæmumst út til Kína að sækja hana Luo okkar. Við fórum til Reykjavíkur á ferðafund þar sem allur hópurinn okkar hittist, var það í annað sinn sem hópurinn hittist allur saman. Reyndar erum við búin að nota okkur netið til samskipta mjög mikið og manni fannst bara að maður hefði þekkt þetta fólk í óratíma! Auðvitað erum við búin að kynnast svolítið með þessum samskiptum og er þessi hópur vel samstilltur og fókuseraður á verkefnið. Það virðist okkur vera mjög auðvelt að taka ákvarðanir og erum við hæstánægð með alla þessa nýju vini og ferðafélaga.

Hekla Xi og Margrét Edda smella saman og varla hægt að slíta þær í sundur, þær verða eflaust miklar vinkonur. Alveg yndislegt að sjá þær saman, það verður ekki mikið mál að ferðast með þessar duglegu stelpur.

Ferðaleyfið sem við biðum eftir kom svo óvænt núna fyrir viku síðan og þá má segja að allt hafi farið á fulla ferð! Svolítið absúrd að þegar við erum búin að bíða eftir þessu í tvö og hálft ár að þá hafi maður skyndilega ekki nærri nægan tíma til að undirbúa sig! En svona er þetta bara, við setjum bara á okkur Íslensku víkingahjálmana og látum þetta bara reddast!

Við höfum verið að vinna talsvert mikið síðustu vikurnar til að hafa svona sæmilega hreint borð þegar við förum. Það hefur gengið bærilega og nú er bara einn vinnudagur eftir áður en að við förum suður.

Við förum semsagt suður á miðvikudag og svo út til Kaupmannahafnar á föstudagsmorgun. Þar ætlum við að gista eina nótt og hafa það svolítið huggulegt fram á laugardag. En við förum í loftið til Beijing á laugardagskvöld. Lendum svo í Beijing upp úr hádegi á sunnudaginn 30. mars og höldum áfram til Guangzhou í beinu framhaldi af því og lendum þar um klukkan 19.00 á sunnudagskvöldinu.

Þetta ferðalag á líklega eftir að taka svolítið á, en við erum öllu vön og látum það ekkert á okkur fá. Svo er það líka gulrótin, við fáum hana Luo í fangið daginn eftir. 31. mars verður tímamótadagur í lífi okkar fjölskyldu, nýr fjölskyldumeðlimur bætist í hópinn. Næstu daga þar á eftir verðum við í pappírsvinnu varðandi ættleiðinguna og vegabréf. Ásamt því förum við í hinar ýmsu skoðanaferðir og reynum að skoða sem mest, áður en að við fljúgum til Beijing þann 10. apríl.

Þar taka við frekari skoðunarferðir og pappírsvinna í sambandi við Schengen áritun fyrir Luo litlu. Það verður svo 15. apríl sem við fljúgum til Kaupmannahafnar og svo í beinu framhaldi heim á farsældar Frón.

Núna erum við að ljúka við lokaundirbúning, búin að raða gróflega í töskur og gera allt annað klárt. Loki fer í fóstur á Neskaupstað hjá Afa Hjörvari og Nönnu, þar verður stjanað við gamla karlinn okkar á meðan að við verðum í burtu.

Þangað til næst...
Kveðja frá Egilsstöðum,
Kári Valur, Valdís og Hekla Xi.


1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kæru vinir.
Gleðilega páska og gangi ykkur vel við lokaundirbúninginn. Þetta er bara alveg að bresta á! Mikið hlökkum við til að fylgjast með ykkur.
Bestu kveðjur frá Akureyri,
Helga og Sigríður Anna Dan