sunnudagur, 6. apríl 2008

Bæjarrölt og sigling á Pearl River.

Hildur Luo í baði í morgunsárið.

Feðgin í stuði.

Mæðgurnar og Stína í bæjarröltinu.

Þarna var hægt að kaupa Tígrisklær og ýmis horn.

Mæðgurnar flottar.

Hekla Xi og Margrét Edda í siglingunni.

Valdís alsæl með ungann sinn.

Shonefei fararstjóri uppfræðir okkur um eitthvað skemmtilegt.

Í dag var frí frá skipulögðum skoðunarferðum hjá henni Shonefei frá BLAS (Bridge of Love Adoption Service). En BLAS sér um okkur hér í Kína, hjálpaði okkur með að fá hótel, rútur, aðstoðar við ættleiðingarferlið og skipuleggur fyrir okkur skoðurnarferðir.

Shonefei hefur verið alveg frábær, hún hefur gert ýmislegt fyrir okkur sem er fyrir utan hennar verksvið og það með bros á vör. Hún hefur komið til móts við allar okkar óskir eftir því sem það hefur verið mögulegt og verið okkur stoð og stytta á alla lund. Vel gerð kona og skemmtileg.

En að okkar högum, Hildur Luo er með einhverja lumbru í sér og í morgun var hún með svolítinn hita, þannig að eftir morgunmat tókum við því rólega með henni uppi á herbergi gömlu hjónin. Við sofnuðum öll á meðan að Hekla Xi fór með Margréti Eddu og mömmu hennar í leikherbergið og áttu góða stund saman. Svo þegar hún kom upp þá bönkuðu þær upp á hjá Stínu og fóru þar í feluleik. Á meðan sváfum við hin á okkar græna eyra í næstum einn og hálfan tíma. Óskaplega er nú gott að hafa góða að hérna í ferðinni.

Upp úr hálftvö fórum við svo á bæjarrölt með Andreu, Brynjari og Erlu Sif. Fengum okkur gott kaffi á Starbucks og fórum svo smá hring út fyrir Shamian eyjuna og upp í hverfið í kring um Quingping markaðinn. En markaðurinn sá er stærsti matarmarkaður í Kína. Þangað væri gaman að koma. Nógu var nú skemmtilegt að koma þarna í göturnar í nágrenninu.

Þarna var mikið verið að versla með krydd, þurrkaða sveppi, engifer, slönguskinn og sæhesta, hunda, ketti og gullfiska. Og síðast en ekki síst voru menn að selja antílópuhorn, nashyrningahorn og tígrisdýraklær, kolólöglegt auðvitað enda voru menn með varninginn á teppum á götunni svo fljótlegt væri að taka saman og hlaupa á brott.

Við keyptum ýmislegt smálegt og skemmtilegt, röltum svo í gegn um gamalt íbúðahverfi til baka, en þar var lítið um búðir. En þar var lífið í hægum takti, ekki að sjá stressið í miðjum skarkalanum í 12 milljón manna borg. Þarna voru menn meira að segja að leggja sig á reiðhjölapöllum úti á götu! Fullt af fólki sem veitir okkur mikla athygli og alltaf er það jákvæð athygli sem við fáum. Mörg bros og þumlar upp í loft.

Þó að þarna hafi verið ofboðslega mikið af fólki og örtröð var mjög afslappað andrúmsloft. Fólkið svo rólegt og síbrosandi. Við komum upp á hótel og undirbjuggum okkur í rólegheitum fyrir siglingu sem við höfðum fengið Shonefei til að skipuleggja fyrir okkur.

Báturinn lagði af stað með okkur klukkan 18.30 og var þetta voðalega notalegt og við fengum bestu sætin í bátnum, Shonefei pantaði fyrir okkur á föstudagskvöld. Rétt eftir að við vorum lögð af stað var hóað í hlaðborð sem verður nú að segjast eins og er að var ekki sérstaklega gott, en allt gott og blessað með það. Eftir að það dimmdi fjölgaði neonljósunum á húsunum og í árbökkunum smátt og smátt. Þetta náði svo hámarki með alls kyns ljóskösturum og leisergeislum. Rosalega flott og þetta sjáum við líka hérnu út um herbergisgluggann okkar, en það var auðvitað mun tilkomumeira að vera þarna úti á Pearl River og upplifa þetta beint í æð. Frábært.

Þegar við komum heim á hótel var Hildur Luo litla komin með hita og fékk hún hitalækkandi seint í kvöld. Hún er búin að vera óróleg í svefninum og við verðum að sjá til hvort að við verðum ekki bara heima í rólegheitunum á morgun ef ekki bráir af henni. En við höldum að þetta sé nú ekkert til að hafa áhyggjur af, en ef þetta lagast ekki í fyrramálið þá athugum við með lækni. En við höldum að þetta sé bara smá flensulumbra sem hún hristir vonandi af sér fljótt og vel.

Kveðja frá Guangzhou,
Kári Valur, Valdís, Hekla Xi, Hildur Luo og Stína.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

kæra fjölskylda
mikið er gaman að fylgjast með ykkur,
og hrein unum að skoða allar fallegu myndirnar af yndislegu stelpunum ykkar. Þær eru algjörir gullmolar.
kv díana hópi 13

Nafnlaus sagði...

Hæ, knús á línuna!

er í skólanum að refresh-a síðuna nánast á hálftíma fresti... hehe,
bíð ss. spennt eftir næstu færslu :)

kv. frá Dan, Soffía Tinna.