miðvikudagur, 2. apríl 2008

Rólegheitadagur í Guangzhou.


Sætar systur í morgunsárið.

Ríkur maður við morgunverðarborð.

Vinkonurnar kanna sundlaugargarðinn.

Guangzhou city scape.

Þurrkaður fiðurfénaður í supermercado.

Á veitingastaðnum í kvöld.

Prinsessan Hekla Xi í hásæti sínu.

Bara vera nógu fljót!!

Við viljum byrja á því að þakka ykkur sem eruð að kíkja á þessa ferðasögu okkar fyrir hlýjar og góðar kveðjur hérna á athugasemdakerfinu og í gestabókinni. Það er alveg óskaplega skemmtilegt og mikils virði fyrir okkur að fá svona sterk viðbrögð frá ykkur. Það er mikill styrkur fyrir okkur og stúlkurnar okkar í framtíðinni. Sömuleiðis viljum við senda öllum heima á Egilsstöðum sem eiga um sárt að binda eftir slysið um helgina, við hugsum til ykkar og vottum ykkur samúð okkar alla.

Hér var farið á fætur rúmlega hálfsjö. Hildur Luo vaknaði með bros á vör og var greinilega ánægð að sjá nýbakaða foreldra sína, enda eru þau öll á hjólum í kring um hana og gefa henni eins fljótt að borða og þau geta. Enda eins gott, því að annars lætur þessi litla stúlka vel í sér heyra ef hún er svöng. Já líka ef við erum ekki nógu fljót að skófla grautnum í munninn á henni!

Kári og Hekla Xi fóru í könnunarleiðangur um hótelið með Margréti Eddu og familí eftir morgunmat. Sundlaugar voru kannaðar og teknar út eftir kúnstarinnar reglum. Því miður standast þær ekki íslenska staðla um barnvæna sundhætti, því að þær eru eins og Hekla Xi sagði með miklum vonbrigðatón í röddinni: "Þetta er ííískalt". En það var gaman að skoða þetta og ef það væri örlítið betra veður væri þetta alveg allertiders sólarogsundparadís. En stelpurnar höfðu gaman að þessu, þarna voru tvær flottar sundlaugar og líkamsræktarstöð. Það var meira að segja foss ofan í sundlaugina og sjóræningjahellir á bakvið!

Kári og Hekla Xi fóru svo í leikherbergið hérna á neðstu hæðinni og höfðu það huggulegt með Tomma og Jenna í smástund. Á meðan fór hinn hluti föruneytisins á smá búðarand í og í kring um hótelið. Valdís er búin að spotta út nokkra flotta hluti sem hana langar í og ætlum við að láta til skarar skríða einhvern næstu daga!

Seinnipartinn var farið í súpermarkaðinn til að draga að sér nokkrar nauðsynjar, þar var hefðbundinn hávaði í kínverskum verslunum tekin upp á næsta stig! Margt forvitnilegt bar þar fyrir augu í matvörunni eins og nærri má geta hér í Guangzhou, því hér borða menn allt á fjórum fótum nema borðið og allt sem flýgur nema flugvélar!

Enduðum daginn á að fara á voðalega fínan veitingastað með langa sögu á bak við sig. Mjög forvitnilegur og góður matur. Ekki eru þeir að krydda neitt óskaplega, en á sama tíma fær spriklandi ferskt hráefnið að njóta sín. Þá er sama hvort að það er kjöt, fiskur eða grænmeti, allt eldað eftir sterkri hefð hérna í Canton eins og það var kallað í gamle dage.

Nú eru stúlkurnar okkar löngu sofnaðar og við reynum að undirbúa morgundaginn eins og við getum til að nýta tímann sem best þegar stelpurnar koma á fætur. Það tekur svoítinn tíma að komast í gang með tvær prinsessur, margt að hugsa um og oft gleymir maður einhverju. Og þá oftast einhverju sem varðar okkur fullorðna fólkið, en þetta kemur allt saman smá saman. Stína er okkur líka til halds og trausts, hún er ótrúlega fljót hjálpa upp á hluti sem gleymast í dagsins önn hérna hjá okkur.

Kveðja fra okkur öllum,
Kári Valur, Valdís, Hekla Xi, Hildur Luo og Stína.



8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman gaman. Hlökkum rosa mikið til að sjá ykkur, getið þið ekki bara farið að drífa ykkur heim??

Nafnlaus sagði...

Það er svo gaman að lesa pistlana ykkar og skoða myndirnar, mamman hér hlakkar til á hverjum degi að sjá nýjar fréttir. Svo yndislegt að sjá myndir af systrunum saman og ykkur öllum.
Gangi ykkur vel áfram og njótið þess í botn að vera í Kína.
Bestu kveðjur,
Helga og Sigríður Anna Dan

Nafnlaus sagði...

Mjög gaman að fylgjast með síðunni hjá ykkur.
Hekla Xi og Hildur Luo eru ekkert smá sætar!! Fyrirmyndar systur þarna á ferð :)

Knúsið svo hana múttu mína frá okkur öllum hérna á Markarflötinni :)

Hlakka til að fá ykkur öll hérna heim á klakann!!

Bestu kveðjur,
Elsa Rut

Nafnlaus sagði...

Hæ öll.
Það er alveg frábært að geta fylgst svona vel með ykkur og að sjá hamingjuna skýna úr hverju andliti. En það eru ekki bara þið sem geislar af þessa dagana, við erum öll í skýjunum hér heima á klakanum líka þrátt fyrir leiðnda veðráttu a.m.k. hér eystra.
Þær systur eru alveg frábærar saman og auðséð að Hekla Xi er í essinu sínu í stórusystur hlutverkinu, svo sem vænta mátti.
Kær kveðja til ykkar allra.
Pabbi og Nanna.

Nafnlaus sagði...

Við gleðjumst mikið með ykkur þó það séu nokkrir km. á milli okkar núna. Góða nótt og gangi ykkur vel.

Ástar kveðja úr Geitlandi 2

Nafnlaus sagði...

Fyrir pabbann sæla.
Roma - ManUnt 0-2 (Roo/Ron)
Shalke - Barcelona 0-1 (Boban)

Gyda og Kalli sagði...

Kæra fjölskylda - þið eruð bara flottust!!! Til hamingju með hvort annað.
Gyða, Kalli og Sigga Bára Min

Nafnlaus sagði...

Gott að heyra að allt gengur vel hjá ykkur! Yndislegar prinsessur sem þið eigið :)
Gangi ykkur vel áfram!
Kv. Kristín, Jens og Katrín Lára