þriðjudagur, 8. apríl 2008

Chen Clan Academy og veikindi að baki....

Stína í Kína.

Hekla Xi og ljónamamman.

Feðgin á ferð í Chen Clan Academy.

Hekla Xi í gini drekans.

Familien Hjörvarsson.

Systurnar leika.

Fegurðin uppmáluð.

Yndislegar stelpur sem við eigum.

Á strolli á Shamien Island.

Hekla Xi fékk aftur að fara í sund.

Og svo í jurtabað, voða gott fyrir húðina.

Það var þungu fargi af okkur létt í morgun þegar fór að brá af Hildi Luo okkar. Hún vaknaði upp um klukkan hálftvö í nótt með tæplega 40°c hita og fékk þá hitalækkandi. Hafði sofið vel fram að því og svaf svo mjög vel fram til að verða átta í morgun. En þá var hitinn kominn upp í 39.5°c hita og við hringdum strax í Shonefei og hún vildi að við færum strax á spítala með hana. Hún bað okkur að bíða eftir sér og við færum saman.

Þegar hún kom eftir rúmlega klukkutíma hafði Hildur Luo fengið niðurgangsskot og hitinn lækkað niður í tæpar 38°c, og það án þess að við gæfum henni hitastillandi. Þannig að fallið var frá því að fara á spítalann og sjá til upp úr hádeginu hvort að þetta rjátlaðist úr henni. Valdís varð eftir heima á meðan að hinir fóru í skoðunarferð að skoða Chen Clan Academy.

Þessi ferð var mjög áhugaverð og skemmtileg. Eins og svo oft áður hér í Guangzhou var þarna mitt í 12 milljón manna hafinu alger kyrrð og friður. Það er eins og tíminn standi kyrr á afmörkuðum svæðum hérna. En allstaðar annarsstaðar er allt hlandvitlaust! Þarna var voðalega gott að vera með börnin og fullt að sjá.

Þetta var byggt upp úr 1890 af Chen fjölskyldunni sem einhversskonar staður til tilbeiðslustaður og staður þar sem fjölskyldumeðlimir gátu notað til að vera á þegar farið var til Guangzhou, höfuðborgar Guangdong héraðs. Chen fjölskyldan var dreifð um Guangdong hérað og gríðarlega auðug eins og hægt er að sjá á þessari stórkostlegu byggingu.

Þarna var hægt að kaupa þessa hefðbundnu minjagripi og voru listamenn að störfum við að grafa í innsiglisstimpla, mála myndir með fingrunum og skrifa táknin á fallegan pappír(calligraphy). En callygraphy er mikil list hér og njóta meistarar í greininni mikillar virðingar. Við fengum ágætan mann til að skrifa á fallegan pappír fyrir dæturnar, gömlu nöfnin þeirra, afmælisdaginn, fundarhéraðið og svo settu þeir fallegan málshátt eða máltæki með. Ofsalega fallegt og gaman að sjá manninn skrifa þetta af mikilli list.

Þarna voru líka hinar ýmsu sýningar á gömlum munum og líka nýlegum hlutum unnum eftir hefðbundnum aðferðum. Alveg meiriháttar flott postulín til dæmis, sem Stína sagði reyndar að væri ekki það erfiðasta í heimi! Þetta tæki langan tíma, en Stína er búin að læra postulínsmálun í mörg herrans ár og er ansi sleip verðum við nú að segja! En það er nú með þetta eins og margt annað; það er ekkert sérstaklega erfitt sem maður kann.

Þarna voru nánast engir túrhestar á ferð, rólegt og fámennt. Alveg meiriháttar fallegar byggingar allar útskornar hvort sem það var steinn eða tré. Hápunktur skoðanaferðanna að Kára mati.

Þegar heim var komið var hitinn hjá Hildi Luo kominn enn neðar og þær höfðu getað sofið nánast allan tímann sem við vorum í burtu. Við fórum því næst í hópmyndatöku niður í lobbýi og þaðan á röltið hérna á Shamian eyjunni. Byrjuðum á að fara á kaffihús og fengum voða gott kaffi og kanilsnúð. röltum svo um og sáum meðal annars krakka í frímínútum leika sér og í leikfimi. Voðalega fínir krakkar og hress og kát.

Hekla Xi, Hildur Luo og pabbi þeirra fóru svo heim á hótel til að hleypa Heklu Xi í sundlaugina, en mamma og Stína fóru á smá búðarand. Þegar við komum heim á hótel var sú stutta orðin hitalaus, en hún er ákveðin hún Hildur, það leikur enginn vafi á því! Hún lætur í ljósi skoðanir sínar alveg óspart ef henni mislíkar eitthvað og eru það engin smá tíst heldur mikil öskur, jafnvel þannig að Hekla Xi tekur fyriri eyrun! En við leyfum líka ýmislegt sem fer á bannlista í sumar þegar við erum komin heim, og rykið er sest eftir þessa miklu breytingu á fjölskylduhögunum. Svo verður Hildur Luo auðvitað að fá sinn tíma til að venjast þessu skrýtna fólki og enn furðulegri nýum aðstæðum.

Deginum lukum við svo á þessum líka fína veitingastað hérna rétt við hótelið. Þegar maður kom inn gat maður valið og keypt alls kyns sjávardýr og fiska eða slöngur, froska, lirfur, vatnabjöllur, orma og fleira góðgæti. Þetta átti maður semsagt að fara svo með inn á veitingastaðinn og fá það kokkað á staðnum fyrir þig. Við vorum reyndar ekki svo hugmyndarík en fengum fínasta mat af matseðlinum. Önd - ofnsteikt, nautasteikur á steikjandi pottjárns pönnu, núðlur, steikt hrísgrjón, brokkólí með hvítlauk og tvo voðalega góða eftirrétti. Og annan þeirra ætlum við að hafa síðar...

Á þessum veitingastað var allt vitlaust að gera og nánast allt heimafólk, skvaldrið í salnum var ótrúlegt og kveikt á sjónvarpi rétt fyrir ofan okkur. En ótrúlega góður matur og staðurinn skemmtilegur.

Hekla Xi er búin að vera svolítið rellin í dag, með myndavélafælni á háu stigi og þarf að berjast við hana í smástund fyrir hverja sæmilega mynd. Okkar fókus hefur ósjálfrátt farið yfir á litlu veiku prinsessuna, en nú stendur þetta allt til bóta. Hekla Xi er tildæmis búin að vera óskaplega dugleg að borða, hún segir bara: Smakka allt, ekkert pjatt! Og svo kom nýr í dag: Engin læti, bara kæti!
En þegar þreytan er að bera hana Heklu Xi ofurliði er þráðurinn stuttur eðlilega, en góða skapið er aldrei langt undan og er hún ofsalega dugleg í ferðinni yfir höfuð. Þá er bara að vona að hún veikist ekki eins og systir sín. Svosem engin ástæða fyrir því að ætla það.

Kveðja,
Kári Valur, Valdís, Hekla Xi, Hildur Luo og Stína.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábært að sú stutta er að hressast. Vonandi komist þið öll út á morgun. Mér finnst þessi ferð vera orðin nógu löng hjá ykkur núna, getið þið ekki bara komið heim?
K og co

Nafnlaus sagði...

Kæra fjölskylda!

Það er svo gaman að lesa ferðasöguna ykkar og vissulega er gaman þegar allt gengur vel! Frábært að Hildur Luo skyldi hrista veikindin af sér í einum grænum! Stóra systir Hekla Xi er alveg meiriháttar dugleg,þið meigið nú vera aldeilis hreikinn af henni!! :)

Bestu kveðjur úr snjónum í Reykavík
Sigga og Lóa Guðrún

Nafnlaus sagði...

Kæru vinir,

Það er ekki laust við að maður kenni klökkva þegar maður les ástríkar og innilegar lýsingar ykkar á dætrunum tveim, þessum tveimur höfuðpólum í tilveru ykkar.
Í einu orði dásamlegt.

Svo höfða nú alltaf lýsingar á öllu matarkyns líka sérstaklega til mín. ;-)

Innilega til hamingju með undurfagra og vel skapaða viðbót við litlu fjölskylduna. Okkur Búlendinga hlakkar til að hitta ykkur.

Ástarkveðjur,
Ómar, Hjördís og dætur