fimmtudagur, 3. apríl 2008

Ættleiðingarskjalið í höfn.

Hjá pólitíinu í morgun.

Myndin í ættleiðingarskjalinu, bara nokkuð góð!

Í Yuntai garðinum.

Hekla Xi skoðar fíneríið.

Sætust.

Flottar mæðgur.

Vinkonurnar vopnaðar sápukúlubyssum.

Stoltur pabbinn með stelpurnar sínar.

Afskaplega slakar eftir nuddið.

Dagurinn í dag var svosem rólegheitadagur líka. En við fórum í pappírsvinnuna sem við áttum að fara í í gær núna í morgun. Það var verið að skrá ættleiðingarpappírana inn á lögreglustöð hér í borginni. Það gekk hratt fyrir sig og ákaflega alvarlegur officer tók á móti okkur og tók mynd af Hildi Luo með vefmyndavél inn á tölvuna sína og skoðaði passana okkar ásamt ættleiðingarskjalinu góða.

Það eru semsagt stóru fréttir dagsins að við erum komin með ættleiðingarskjalið í hendur og núna er Hildur Luo formlega orðin okkar gagnvart lagabálki Kínverska Alþýðulýðveldisins! Almenn hamingja og gleði í hópnum með það auðvitað.

Annað sem bar til tíðinda var að við hittum konu hér á hótelinu sem fékk að fara í heimsókn á barnaheimnilið á síðasta föstudag eða laugardag. Hún þekkti Hildi Luo samstundis þegar hún sá okkur koma í morgunverðinn í gærmorgun. Þá kynnti hún sig og sagðist vera handviss um að hún hefði tekið myndir af Hildi Luo á barnaheimilinu þegar hún var þar. Sem reyndist rétt því að þegar við komum heim í dag beið okkar tölvupóstur með tveim myndum af nýju prinsessunni í sínu gamla umhverfi. Virkilega gaman og dýrmætt að fá þessar myndir í hendurnar.

Svo verður spennandi að sjá hvernig þetta lítur allt út á laugardaginn þegar við förum í heimsóknina okkar á barnaheimilið.

Eftir heimsóknina á lögreglustöðina var farið í Yuntai garðinn, svona nokkurskonar grasa- og skrúðgarður Guangzhou. Það rigndi svolítið inn á milli, en þetta var voðalega friðsælt og fallegt. Hekla Xi skemmti sér ágætlega og fékk rafknúna sápukúlubyssu til að dunda sér með. Hópurinn fór svo saman að borða á veitingastað þarna við garðinn.

Það tók heillangan tíma að komast í veisluherbergið sem við fengum, lyfta, stigar og langir gangar. Maturinn þarna var voðalega góður sem endra nær. Ekki eins framandi og í gær, en þó skemmtilegir Dim sum eftirréttir. Annað var svona eins og kókosábrestir og hitt eins og svamkenndir fagurgrænir sykurpúðar, sem einhver líkti við handþurrkur í útliti! Bjarni skildi hins vegar ekkert í því að það var ekki tekið mikið undir að panta snák, en það verður eflaust tækifæri til þess.

Í eftirmiðdaginn fóru Valdís, Stína, Andrea, Hrönn og Ingibjörg á nuddstofu hérna rétt hjá hótelinu, sneru þaðan alsælar og sendu karlpeninginn þegar af stað í sömu meðferð. Kári, Bjarni og Brynjar fóru saman en Tommi kom eitthvað síðar og var einn á báti. En karlarnir létu sér ekki klukkutíma nudd duga heldur tóku tvo tíma á þetta. Og þvílík sæla! Þetta voru sko engin vettlingatök, því það var tekið vel á okkur og allir hnútar og allar skekkjur teknar og nuddaðar veg allrar veraldar. Maður var eins og valsaður harðfiskur eftir þessa guðdómlegu meðferð, ótrúlega gott.

Við fimm fræknu lukum svo deginum á Lucy´s hérna neðar við götuna, en það er svona amerískur diner. Fengum okkur bara pizzu og steiktan kjúkling. Gott að gefa Heklu Xi og okkur líka smá breik frá Kínversku kræsingunum, en komum aftur tvíelfd á morgun!

Bestu kveðjur úr rigningunni í Guangzhou,
Hin fimm fræknu.


4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Innilega til hamingju með að þetta sé allt orðið formlegt:D
get ekki beðið eftir að fá ykkur heim:)
kv. Berglind ösp

kristinvald sagði...

Ohhhh....þær systur eru baaara sætastar !! Mikið eruð þið rík :-)

Kær kveðja
Kristín, Gústi og Matthildur

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með ættleiðingarskjalið!:) Þær systur eru æði!!!
Kveðja
Sigga, Bjössi og Lóa Guðrún

Nafnlaus sagði...

Það er alveg frábært að geta fylgst svona með ykkur. Krakkarnir í Lundi eru nú samt flest með það á hreinu að systkini þeirra hafi ekki verið sótt til Kína en sumir eru alveg vissir um að ófædd systkini þeirra eigi eftir að fá svon eitt kínverskt nafn. Alveg dásamlegar umræður hér og við hlökkum til að fá ykkur heim en þangað til kíkjum við bara á síðuna.
Hera