föstudagur, 4. apríl 2008

White Cloud Hills og fatakaup.

Stóra systir í skemmtiatriðum.

Fjölskyldan í Baiyun Shan.

Mamman "on the go".

Mæðgurnar kæla sig.

White Cloud Hills.

Hekla Xi í sápukúlustuði.

Erfiður dagur fyrir smáfólkið.

Engillinn sefur í rútunni.

Brynjar, Bjarni og Kári Valur í verslunarleiðangrinum.

Í dag hitnaði talsvert hér í Guangzhou, hitinn kominn vel á þriðja tuginn og rakinn er mjög mikill. Mistur liggur yfir öllu, en sólin barðist við að brjótast í gegn. Hún hafði það ekki alveg af.

Kári skrapp yfir kanalinn til að kaupa regnhlífarkerru til að létta undir í skoðunarferðum næstu daga, á leiðinni gat að líta menn sem voru að selja tígrisdýraklær, þurrkaða apahandleggi, horn líklega af dýrum á válista og annarskonar dýraútlimi. Ekki lét hann freistast drengurinn, heldur stormaði beint í kerrubúðina og prúttaði kerruna niður um tæpan helming þaðan sem prúttið hófst.

Við fórum og fengum okkur labbitúr í hæðum hérna rétt fyrir utan miðborgina, en þær heita Baiyun Shan eða White Cloud Hills. Þar gengum við áleiðis upp í hæðirnar og nutum þess að vera einu túristarnir á ferðinni. Í dag var almennur frídagur og talsvert mikið af fólki í þessum garði að sporta sig og anda að sér ferska loftinu uppi í hæðunum. Mjög notalegt og í einni pásunni fengum við tofu á tvennan hátt, annað með engifer og hitt með kókos. Alveg glettilega gott.

Strax og við komum heim á hótel fóru Kári, Brynjar og Bjarni með fararstjóranum til að kaupa gjöf handa barnaheimilinu. En frú Yu hafði óskað eftir að við keyptum föt og handklæði er við inntum eftir því hvað barnaheimilið vanhagaði helst um. Þarna var farið í risastóran barnafataheildsölumarkað og við reyndum að velja eitthvað gáfulegt. Vonandi nýtist þetta vel, við gerðum okkar besta.

Við tókum það rólega í kvöld, enda verður langur og strangur dagur á morgun þegar við förum í heimsókn á barnaheimilið. Það er ræs klukkan 5.30 og brottför klukkan 7.00, pronto! Við gerum ráð fyrir að þessi ferð taki allan daginn og jafnvel fram á kvöld og við hlökkum óskaplega til.

Hildur Luo er bara yndisleg, hvað annað? Hún virðist vera að tengjast okkur alveg ótrúlega vel þó að ekki séu liðnir nema fjórir og hálfur dagur hjá okkur. Hún er með mjög reglubundinn takt, sefur vel, borðar mjög vel og virðist vera í ljómandi góðu jafnvægi. Hún grætur ekki nema að hún sé svöng, þreytt, vanti mömmu sína(en hún er svolítil mömmustelpa) eða ef við erum ekki nógu fljót að mata hana!

Hekla Xi er alveg ótrúlega dugleg og þær systur eru alltaf að bindast meir og meir. Hekla Xi virðist vera algerlega tilbúin í að eignast systur og það virðist vera henni algerlega eðlilegt að þetta gangi svona fyrir sig. Það er eins og að hún sé búin að eiga systur talsvert lengur en þessa daga, enda kannski ekki skrýtið þar sem að aðdragandinn hefur verið langur og Hekla Xi meðvituð um þetta mjög lengi. Við erum alveg orðin sannfærð núna ef við vorum það ekki fyrir að það var hárrétt ákvörðun að taka Heklu Xi með í þessa ferð og leyfa henni að taka þátt í þessu frá fyrstu hendi. Hún áttar sig betur á rótum sínum og skynjar uppruna sinn betur. Á sama tíma tengist hún okkur enn betur og fjölskyldan verður sterkari eftir en áður.

Þannig að þið sjáið á þessum skrifum að við erum alveg að springa af monti af þessum stelpum okkar og teljum okkur óendanlega heppin að hafa auðnast að eignast þær.

Kveðja frá heitri Guangzhou,
Kári Valur, Valdís, Hekla Xi, Hildur Luo og Stína frænka.

3 ummæli:

Gislina sagði...

Yndislegt að fylgjast með ykkur, gaman hvað allt gengur vel hjá ykkur. Systurnar eru bara æðislegar saman.

Get tekið undir orð ykkar um að tengsl okkar foreldra og eldri systkinna verða sterkari og dýpri eftir svona ferð og er á því líka að aðlögun þeirra að eignast systkinni verður auðveldari og tengsla þeirra tveggja sterkari. Kannski lengri og erfiðari ferð til að stækka fjölskylduna en upp á fæðingardeild, en örugglega miklu eftirminnilegri og ævintýralegri.

Gilla, Friðjón, Ellý Rún og Herdís Heiða

Nafnlaus sagði...

elsku vinir, innilega til hamingju með snúlluna, hún er alveg dásamleg. stóra systir er alveg eins og fædd í hlutverkið. gaman að fylgjast með ykkur og fá pínulítið að upplifa þetta með ykkur. okkar bestu kveðjur úr kuldanum Edda Hrönn, Smári, Róbert þormar og Margrét Lilja

Nafnlaus sagði...

Langaði bara til að óska ykkur hjartanlega til hamingju með nýjasta fjölskyldumeðliminn! Þær eru dásamlega fallegar stelpurnar ykkar og mikið er gaman að lesa um hvað allt gengur vel.

Kær kveðja,
Rannveig (skólasystir Kára úr Verzló)