föstudagur, 11. apríl 2008

Schengen áritun og Sendiráðsboð.

Útsýnið úr herberginu okkar.

Stelpurnar merktar fyrir bæjarferð.

Stelpurnar og helmingurinn af pokunum úr Silk Market.

Og Kári með Hildi Luo og hinn helminginn af pokunum.

Gleði í leigubíl.

Fjölskyldan í boði í sendiherrabústaðnum.

Schengen áritun og gjafir afhentar, Jóhann, Valdís,
Gunnar,Hildur Luo, Kári og Axel.



Það var sól og blíða sem blasti við út um gluggann hérna hjá okkur í morgun. Morgunsólin lýsti upp gylltu þökin á Forboðnu borginni og Tian An Man hliðinu. Fegurðin ein sem blasir við okkur hérna. Við erum enn að býsnast yfir þessu hóteli, Grand Hotel Beijing, einhvernvegin býst maður ekki við að verða nokkurntíma aftur á svona fínu og góðu hóteli. Og ekki höfum við verið á svona standard fyrr, þó að það hafi nú ekki verið neinir hænsnakofar sem við höfum verið á hingað til!

Við byrjuðum daginn á að fara í Íslenska sendiráðið til að ganga frá pappírsvinnu vegna Schengen svæðisins, einn fulltrúi fyrir hvern nýjan Íslending. En það þar að gera fyrir Hildi Luo vegna þess að hún er á Kínversku vegabréfi og til að við getum ferðast hindrunarlaust í gegn um Kaupmannahöfn til Íslands þarf þetta að vera í lagi.

Við mættum klukkan að verða ellefu í morgun í Landmark building til hans Jóhanns sem sér um vegabréfsáritanir í sendiráðinu. Hjá Jóhanni fengum við hinar blíðustu móttökur, hann gaf sér tíma til að gera þetta með okkur í rólegheitunum og var hinn liðlegasti í alla staði. Kunnum við honum okkar bestu þakkir fyrir almennilegheitin. Þetta var nú eitthvað annað en þegar við þurftum að koma í steikjandi hita og bíða í biðröðinni við sjoppulúguna í Danska sendiráðinu hérna um árið þegar við fórum í geng um það sama með Heklu Xi.

Fararstýran okkar hún Wei átti heldur ekki til orð yfir hversu óformlegt og þægilegt þetta var hjá honum Jóhanni, en hún hefur verið að aðstoða Bandaríkjamenn, Hollendinga og Norðmenn undanfarið og eru formlegheitin og stofnanabragurinn nú talsvert meiri á þeim bæjum.

Þegar við komum heim á hótel aftur fórum við nokkur í leiðangur á Silk Market og var það merkileg upplifun. Þetta var á sama tíma alveg algerlega óþolandi og alveg drepfyndið á köflum. Þarna er semsagt mikill markaður á fimm eða sex hæðum. Ýmis varningur, föt, minjagripir, skart og fleira slíkt, allt saman eftirlíkingar og svikin vara. Þarna var merkjavara í löngum bunum og allt á special price! Þröngir gangar og litlir básar þar sem háværir sölumenn reyna að lokka mann inn til að kaupa varninginn. Grípa jafnvel í mann til að ná athyglinni, þarna var peningurinn fljótur að fara! En maður sjóaðist svolítið eftir því sem á leið og var kannski ekki féflettur alvarlega undir lokin, en féflettur samt! En þetta var nú bara svolítið gaman, svona að upplifa þetta í smátíma en mikið var nú gott að komast út úr þessu fuglabjargi af kostaboðum.

Hildur Luo lét sér fátt um finnast og sofnaði fljótlega eftir að við komum inn, en Hekla Xi skoðaði af miklum áhuga. Enda fékk hún eitt og annað í þessari ferð. Flugdreka, skó sem blikka og eitthvað fleira. Alveg ágætt.

Drifum okkur svo heim til að undirbúa okkur fyrir boðið til sendiherrans og svo þurftum við líka að komast í matvöruverslun til að fá eitt og annað í búið fyrir næstu daga. Það var haldið af stað rétt rúmlega fimm og við komum að sendiherrabústaðnum rétt fyrir sex.

Þar var tekið á móti okkur af kostum og kynjum. Gunnar Snorri sendiherra bauð okkur velkomin ásamt nokkrum öðrum íslenskum gestum sem af einum eða öðrum ástæðum eru staddir hér í Kína. Þetta var hið ljúfasta boð, góður matur og fín stemning. Þar vorum við leyst út með vegabréfi Hildar Luo, Pandabirni og íslensku súkkulaði! Virkilega hlýlegar móttökur. Svo voru þeir Jóhann og Axel frá sendiráðinu ásamt mökum. Stúlkurnar okkar voru miðpunktur athyglinnar og okkur sýndu sínar bestu hliðar. Við komum hér með á prent okkar bestu þökkum fyrir móttökurnar og hlýlegt viðmót hjá öllu þessu fólki sem við hittum þarna.

Við komum hérna heim á hótel að verða klukkan 10 í kvöld og tókum okkur til fyrir næsta dag. Hann verður örugglega viðburðaríkur eins og hinir dagarnir. Enda eru allir dagar ævintýri hér í Kína.

Over and out frá Beijing Grand Hotel,
Kári Valur, Valdís, Hekla Xi, Hildur Luo og Stína.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ,hæ
Við sáum slóðina á heimasíðuna ykkar hjá Hákoni og Lilju. Við meigum til með að óska ykkur innilega til hamingju með litlu stelpuna ykkar!! Þær eru rosalega fallegar dömurnar ykkar!!
Góða heimferð!!
Kveðja Þráinn og Jóna Harpa