þriðjudagur, 1. apríl 2008

Kæra dagbók, dagur 2.







Þessi dagur var nú í rólegri kantinum. Við fórum þó af stað snemma í morgun, það var hún Hildur Luo sem kom mannskapnum af stað. En hún vaknaði rúmlega hálfsjö eftir að hún hafði sofið vært í alla nótt. Svöng var hún eðlilega og fékk fyrsta pela dagsins áður en haldið var í morgunmatinn hérna á Hvíta Svaninum.

Þegar því var lokið var farið aftur á ættleiðingarstofu Guangdong héraðs og haldið áfram í pappírsvinnu. Svo var tekin mynd til að hafa í ættleiðingarskjalinu af foreldrunum með nýja barnið. Tvö viðtöl voru svo á dagskránni, annað vegna fullnustu á ættleiðingarskjölunum og svo hitt við Notarius Publicus, svo að hún gæti vottað alla þessa pappíra fyrir Guði og mönnum.

Rétt upp úr ellefu var þessu lokið og leið okkar lá heim á hótel þar sem að læknir kom og skoðaði Hildi Luo. Þar kom ekkert í ljós til að hafa áhyggjur af, smá kvef og hitaútbrot sem við fáum lyf við í fyrramálið.

Við fórum með Stínu á veitingastað rétt hjá hótelinu eftir hádegið. Það var heimur út af fyrir sig að koma þar inn. Þarna var heimafólk allsráðandi, ekki túrista að sjá. Fullt að gera og eldhúsið sjáanlegt í gegn um glugga fyrir endanum á salnum þar sem við sátum. Fengum mjög góðan mat, vorrúllur, kjúklinga- og nautasatay, andabringu, kjúklingavængi og steikt og soðin hrísgrjón. Alveg svona líka glimrandi gott og þrisvar sinnum ódýrara en á okkar ástkæra Hvíta Svani.

Fengum okkur síðan labbitúr hérna á Shamian island og versluðum pínulítið. Svo var bara farið heim og haft það notalegt, Hildur fékk pela og graut, og við kúrðum okkur svolítið í eftirmiðdaginn.

Klukkan sjö fórum við svo með þeim Bjarna, Ingibjörgu, Margréti Eddu og afmælisbarninu Þorbjörgu Önnu á Tælenskan veitingastað. Þar var djúpsteiktur smokkfiskur velt upp úr kókosmjöli með appelsínusósu, grillaður útflattur og marineraður kjúklingur, chilikryddað nautakjöt á ´sissling´ pönnu og hrísgrjón í kókosskel með grænmeti og risarækjum. Alveg bjútífúl!

Í kvöld fengum við svo Hrönn, Tomma og Hörpu í heimsókn, mikið skrafað og skemmtilegt.

Hekla Xi sofnaði MJÖG seint, líklega var þessi síðdegisblundur ekki til að hjálpa til með það. En hún var svo ofboðslega góð í dag eins og hina dagana og gaf systur sinni pelann fyrir svefninn. Það var nú stór stund fyrir stóru systur, alveg í skýjunum með að hafa fengið að gera þetta.

Góður dagur að baki, þangað til næst...

Kveðja frá Guangzhou,
Kári Valur, Valdís, Hekla Xi og Hildur Luo.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æði! Gaman að heyra að allt gegnur svona vel.
kveðjur af klakanum,
K og co

Nafnlaus sagði...

Halló, flottar myndir en matarlýsingarnar eru líka geggjaðar;). Frábært hvað allt gengur vel!!

Bkv, Sigga, Bjössi og Lóa Guðrún

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með Hildi Luo
(hvernig berið þið fram nafnið hennar.)
Ég var límd við tölvuna í gær og verð það áfram, frábært að fá að fylgjast með þótt það sé úr heldur meiri fjarlægð núna en síðast.
Kveðja Anna Þórunn
e.s. hvernig er það,
fást engar dúfur þarna suður frá??

Nafnlaus sagði...

Innilega til hamingju með Hildi litlu. Það er hverju orði sannara að þetta eru fallegar systur. Hlökkum til að sjá ykkur. Gangi ykkur vel. Kveðja Jóney og Gunnlaugur

Nafnlaus sagði...

Hæhæ,

thad er svo gaman ad fylgjast med ykkur og sja hvad allt gengur vel. Ædislegt ad sja hvad Hekla xi er geislandi anægd med litlu systur sina, sætar saman :)

eg er greinilega mjog æst ad lesa thvi mer tokst ad misskilja:
"...og hrísgrjón í kókosskel með..."
sem:
"...og hrisgrjon i KOKTEILSOSU med..."
what?? ..hehe... sma mis..

Hafidi thad gott afram og eg hlakka til ad sja meira af ykkur :)
kv. fra danaveldi, Soffia Tinna.

Nafnlaus sagði...

Innilegar hamingjuóskir til ykkar allra úr Mánatröðinni. Ragna kom í mat í gærkvöldi og við sýndum henni myndirnar af ykkur. Það var mikið spáð og spekúlerað og DÁÐST að þeim systrum. Þær eru yndislegar. Gaman að sjá hvað þær eru glaðar saman.
Gangi ykkur vel.
kveðja, Þorbjörg + Erlendur, Elísabet og Rannveig.

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ

Til hamingju með Hildi Luo. Gaman að fá að fylgjast með ykkur.

Kveðja Anna Dís,Lísbet Eva og Katrín Anna

Nafnlaus sagði...

Enn gaman. Frabært að fylgjast með ykkur. Bíðum eftir nýjum myndum og fréttum á hverjum degi.

Ástar kveðjur mamma og pabbi í Geitlandi.

Ps. það var gaman að heira í Óðni í morgun, eftir að hann var búinn að tala við ykkur.

Nafnlaus sagði...

Hæ Valdís,Kári Valur og sætu systurnar.
Innilega til hamingju með prinssessuna,núna eigið þið tvær . Það er frábært að lesa á blogginu hvað gengur rosalega vel og þið eigið yndislegar stundir saman,en það verður gaman að hitta ykkur á róló eða göngu
bestu kveðjur Einrún,Addi og börn